Friday, January 25, 2013

Bóndadagur


Til hamingju með daginn kæru bændur!
Ég hef ég nú þegar samið lítið ljóð handa mínum stóra "bónda". Þið sem þekkið mig vel vitið að mér hefur alltaf fundist einstaklega skemmtilegt að yrkja ljóð og semja sögur. Því var tilvalið að semja eitt í tilfeni dagsins. Svo er aldrei að vita hvað fleira dagurinn býður upp á fyrir hann.
 Litli "bóndinn" minn fær auðvitað eitthvað dekur líka frá mömmu.

Bóndarnir mínir tveir.

Ég hvet ykkur til þess að dekra aðeins við ykkar bónda, það er svo gaman að gera eitthvað fallegt fyrir þá sem manni þykir vænt um.

xxx


brynja-g

Wednesday, January 23, 2013

Þessa dagana.

Ég er yfir mig ástfangin af stígvélunum sem ég fékk frá Billa í jólagjöf. Mig er búið að langa í Billi Bi stígvél í mörg ár og loksins varð draumurinn að veruleika. 
Hann valdi ótrúlega falleg og klassísk stígvél með hjálp bestu vinkonu minnar, Elísabetar. Þau eru góð saman þegar kemur að því að velja eitthvað fyrir mig, reyndar eru þau alltaf góð saman. Nóg um það! Hann keypti þau í GS skóm í Kringlunni og ég gæti ekki verið ánægðari með þau. Nú hlakka ég bara til þegar snjórinn fer að minnka hérna hjá okkur svo að ég geti farið að nota þau. Ég tími þeim ekki út í snjóinn, þau eru of falleg. Svört leðurstígvél með spennu á ökklanum og efst á kálfanum.


Þau sjást kannski ekki mjög vel á þessari mynd, en nóg samt.

Annars á ég nú ekki von á að snjórinn fari að hverfa, í augnablikinu er hitastigið í kringum -15 gráðurnar. Það er ótrúlega gaman að fá að upplifa alvöru árstíðir. Ekki bara haust/vor allan ársins hring eins og á Íslandinu góða. Hérna er veturinn annað og meira en bara slabb og sumarið oft eins og Mallorca veður. 

Þessa dagana á námið mitt hug minn allan. Ég er í svo ótrúlega skemmtilegum áföngum þessa önnina. Uppáhalds áfanginn minn hingað til er Þroskasálfræði, bæði barna og fullorðinna. Þar sem að ég hef unnið mikið á hjúkrunarheimilum finnst mér mjög áhugavert að læra um þroska fullorðinna og þegar við færumst á okkar eldri ár. Það er merkilegt að skilja hvernig okkur hrörnar og hvað hægt er að gera til þess að hægja á því ferli að einhverju leyti.

Í gær var ég hins vegar að hlusta á fyrirlestur um málþroska barna og það var mjög áhugavert. Kennarinn fór aðeins inn á tvítyngi barna og það fannst mér sérstaklega áhugavert þar sem að ég er að fylgjast með mínum börnum í þeim sporum. 
Kannski maður leggi bara barna-og þroskasálfræði fyrir sig, hver veit!

Læt eina mynd fylgja með af tvíbökunum mínum. Hún var tekin áður en þau fóru í afmæli sl. sunnudag. Ég elska þau endalaust.



xxx
brynja-g

Wednesday, January 16, 2013

1 ár

Í dag höfum við búið í Stokkhólmi í eitt ár upp á dag. Mikið sem tíminn líður hratt. Fyrir ári var maður alveg grænn og vissi ekkert hvað var framundan. Þetta ár er búið að vera gríðarlega viðburðarríkt. Við höfum meðal annars keypt okkur hús og bíl, lært sænsku, kynnst ótrúlega skemmtilegu fólki og fullt fullt fleira. Það hefur líka verið erfitt, ég ætla ekki að ljúga því. Það tekur ótrúlega á að flytja í nýtt land þar sem maður hefur ekki fjölskylduna hjá sér og þekkir ekki inn á neitt. En sem betur fer er aðlögunarhæfni mannsins alveg hreint ótrúleg, fyrir utan það hvað það hefur hjálpað að eiga góða vini að hér úti! Það skiptir rosalega miklu máli. Annars tel ég að það styrki fjölskylduna mikið að flytja svona út saman og vera ein á báti. Það gerði það allavega í okkar tilfelli.



Það sem ég er þó mest ánægð með er hversu vel það hefur gengið með kakkana hérna úti. Þau eru alveg mögnuð. Þau tala sænsku og íslensku í bland, skipta á milli eins og ekkert sé. Þau hafa þurft að aðlagast tveimur leikskólum og staðið í flutningum tvisvar, einu sinni út og einu sinni hér innanlands. Þetta hefur allt gengið svo vel og ég er ekkert smá þakklát fyrir það. Að eiga tvö heilbrigð börn sem standa sig svona vel í öllu sem þau gera eru algjör forréttindi. Jájá, væmnin alveg að fara með mig. En það má líka stundum!

Þessa dagana er ákveðið þema hérna á heimilinu. Það er "Cars og Söngvaborg" þema. 


Krakkarnir vilja helst bara horfa á þetta tvennt, ásamt Ávaxtakörfunni. Ef ég segi eins og er þá finnst mér mjög skemmtilegt að horfa á þetta allt saman, enda er maður farinn að kunna myndirnar utan að. Kári Snær biður helst um Cars og Bryndis Kara um Söngvaborg. Hann er alveg sérlegur áhugamaður um bíla, vörubíla, gröfur og allt sem viðkemur bílum. Hann hefur reyndar rosalega gaman að því að syngja líka og er syngjandi allan daginn, það er mjög sætt. Hún hefur mikinn áhuga á söng og dansi og dansar með Söngvaborg eins og hún hafi ekki gert annað. Ég er viss um að hún verður einhver ballerína eða dansmær einn daginn. Hann hins vegar hefur gríðarlega skotkraft bæði á höndum og fótum svo að það er mjög líklegt að hann fari í boltaíþrótt. Annars mega þau að sjálfsögðu bara ráða því sjálf!






Það er svolítið fyndið að fylgjast með kynjamuninum frá upphafi. Þau fá eins uppeldi en eru samt svo ólík á þennan hátt. Hann er algjör gaur og hún algjör stelpa. Það er samt svo skemmtilegt, að fá að upplifa hvoru tveggja.

Eigið súper gott miðvikudagskvöld. Mínu verður eytt í lærdóm og skype.

xxx
brynja-g

Sunday, January 13, 2013

Weekend

Helgin er heldur betur búin að vera ljúf. Ég byrjaði helgina á því að fara út að borða og á smá tjútt með Mardísi vinkonu.Við fengum okkur ljúffengt sushi á Ljunggrens hérna í Stokkhólmi. Ég elska að fá mér sushi þar og mæli svo sannarlega með þeim stað ef þið eruð á leiðinni til Stokkhólms.
Það var æðislegt. Það er svo nauðsynlegt að hitta vinkonur sínar og eiga smá "fullorðins" tíma. Fá sér hvítvínsglas og spjalla. Nauðsynlegt fyrir sálina.





Á laugardaginn tókum við svo á móti mjög góðum vinum í mat. Við vorum sex fullorðnir og fjögur börn. Það var yndislegt. Mér líður alltaf svo vel þegar húsið er fullt af fólki sem manni þykir vænt um, það er best. Það er einmitt eitt af því sem að ég sakna við Ísland. Að vera ekki umkringd fjölskyldunni og vinum. Mér finnst ég missa svo af frændsystkinum mínum og börnum vinkvenna minna. En sem betur fer er tæknin svo góð að maður getur séð allt á Skype. Svo í staðinn eigum við frábæra vini hérna sem að við fáum að vera mikið með og fylgjast með börnunum þeirra. Það er frábært.

Dagurinn í dag verður tekinn rólega, enda eru sunnudagar letidagar. Ætli ég skelli ekki í eins og eina köku og njóti þess að vera í fríi með fjölskyldunni. 

Eigið sælan sunnudag!

xxx
brynja-g

Thursday, January 10, 2013

2013

Nýtt ár, ný markmið, nýjar áherslur! 

Klisja? Heldur betur! En samt sem áður satt. 
Gleðilegt ár, ég vona að þið hafið haft það alveg ótrúlega gott á notarlegasta tíma ársins. 

Við vorum að kaupa okkur hús svo að það var ekki farið til Íslands þessi jólin.
 Þrátt fyrir mikinn söknuð inn á milli höfðum við það bara voðalega gott. Við eigum svo góða vini hérna sem eru fjölskyldan okkar hér úti. Jólin einkenndust af góðum mat, spilamennsku og rólegheitum í faðmi fjölskyldunnar.

Eins mikið og ég elska jólatímann er nú voðalega gott að vera að komast í rútínu. Skólinn byrjaður, börnin farin á leikskólann, Billi reyndar í smá fríi en fer að vinna eftir helgi. 

Það er magnað hvað manneskjan þarf á vananum að halda. Okkur líður (yfirleitt) best í rútínu og þessu dags daglega umhverfi. Ég heyrði einhvers staðar um daginn (án þess að vera með neinar staðfestar heimildir) að tíminn líður hraðast í hversdagsleikanum. Ef maður hugsar út í það þá er það ótrúlega rökrétt. Til dæmis má nefna þegar maður fer í frí. Þegar maður hefur farið í vikufrí erlendis og kemur aftur heim finnst manni maður hafa verið alveg svakalega lengi í burtu af því að maður gerði svo mikið á þessum tíma. Þegar við gerum eitthvað nýtt fer tíminn einhvern veginn að líða öðruvísi og við nýtum hann á annan hátt. Ekki satt?
Nóg um þessar pælingar.

Við fengum alveg ótrúlega fallega borðstofustóla í jólagjöf frá tengdó. Ég sá þá á netinu og pantaði þá nánast strax. Lengi langaði mig alveg rosalega í hvíta Eames stóla en svo einhvern veginn datt ég í gírinn að fá mér eitthvað tímalaust og klassískt. Þessa fallegu stóla fengum við í Ilvu.



Tímalausir og elegant. Það sést kannski ekki á myndunum en í miðjunni eru tveir saumar sem liggja frá toppnum á bakinu og alveg niður alla setuna. Við fengum okkur þá í hvítu.

Þangað til næst...

xxx
brynja-g