Wednesday, January 16, 2013

1 ár

Í dag höfum við búið í Stokkhólmi í eitt ár upp á dag. Mikið sem tíminn líður hratt. Fyrir ári var maður alveg grænn og vissi ekkert hvað var framundan. Þetta ár er búið að vera gríðarlega viðburðarríkt. Við höfum meðal annars keypt okkur hús og bíl, lært sænsku, kynnst ótrúlega skemmtilegu fólki og fullt fullt fleira. Það hefur líka verið erfitt, ég ætla ekki að ljúga því. Það tekur ótrúlega á að flytja í nýtt land þar sem maður hefur ekki fjölskylduna hjá sér og þekkir ekki inn á neitt. En sem betur fer er aðlögunarhæfni mannsins alveg hreint ótrúleg, fyrir utan það hvað það hefur hjálpað að eiga góða vini að hér úti! Það skiptir rosalega miklu máli. Annars tel ég að það styrki fjölskylduna mikið að flytja svona út saman og vera ein á báti. Það gerði það allavega í okkar tilfelli.



Það sem ég er þó mest ánægð með er hversu vel það hefur gengið með kakkana hérna úti. Þau eru alveg mögnuð. Þau tala sænsku og íslensku í bland, skipta á milli eins og ekkert sé. Þau hafa þurft að aðlagast tveimur leikskólum og staðið í flutningum tvisvar, einu sinni út og einu sinni hér innanlands. Þetta hefur allt gengið svo vel og ég er ekkert smá þakklát fyrir það. Að eiga tvö heilbrigð börn sem standa sig svona vel í öllu sem þau gera eru algjör forréttindi. Jájá, væmnin alveg að fara með mig. En það má líka stundum!

Þessa dagana er ákveðið þema hérna á heimilinu. Það er "Cars og Söngvaborg" þema. 


Krakkarnir vilja helst bara horfa á þetta tvennt, ásamt Ávaxtakörfunni. Ef ég segi eins og er þá finnst mér mjög skemmtilegt að horfa á þetta allt saman, enda er maður farinn að kunna myndirnar utan að. Kári Snær biður helst um Cars og Bryndis Kara um Söngvaborg. Hann er alveg sérlegur áhugamaður um bíla, vörubíla, gröfur og allt sem viðkemur bílum. Hann hefur reyndar rosalega gaman að því að syngja líka og er syngjandi allan daginn, það er mjög sætt. Hún hefur mikinn áhuga á söng og dansi og dansar með Söngvaborg eins og hún hafi ekki gert annað. Ég er viss um að hún verður einhver ballerína eða dansmær einn daginn. Hann hins vegar hefur gríðarlega skotkraft bæði á höndum og fótum svo að það er mjög líklegt að hann fari í boltaíþrótt. Annars mega þau að sjálfsögðu bara ráða því sjálf!






Það er svolítið fyndið að fylgjast með kynjamuninum frá upphafi. Þau fá eins uppeldi en eru samt svo ólík á þennan hátt. Hann er algjör gaur og hún algjör stelpa. Það er samt svo skemmtilegt, að fá að upplifa hvoru tveggja.

Eigið súper gott miðvikudagskvöld. Mínu verður eytt í lærdóm og skype.

xxx
brynja-g

No comments:

Post a Comment