Tuesday, October 15, 2013

Helgin sem leið...

Síðasta helgi var alveg dásamleg. 

Föstudagskvöld eru mín uppáhalds kvöld. Þá bökum við alltaf pizzu með krökkunum. Þau borða sína pizzu fyrst en við foreldrarnir eigum notalega stund með okkar pizzu og rauðvín þegar þau eru sofnuð. Oftar en ekki eyðum við svo kvöldinu í að horfa á þættina okkar með smá nammi í skál. Það er dásamlegt.




Á laugardeginum áttum við börnin svo ljúfa stund með góðum vinum. Við fórum á róló og bökuðum vöfflur og kanilsnúða. Billi var því miður að vinna og gat ekki notið með okkur að þessu sinni.

Eins og ég hafði nefnt áður hélt Mardís upp á afmælið sitt á laugardaginn og það var alveg frábært að fara til hennar. Veglegar veitingar og góður félagsskapur, klikkar ekki.

Sunnudagurinn var svo alveg fullkominn sunnudagur. Við fjölskyldan hittum vini okkar og saman fórum við í hrikalega flottan brunch á Södermalm. Við sátum þar í tæpa þrjá tíma og borðuðum á okkur gat. 
Þetta var hlaðborð svo að það var eins gott að nýta það!

Eftir þetta mikla át langaði okkur mest til þess að leggjast upp í rúm og sofna en við ákváðum að nýta fallega haustveðrið og fengum okkur langan göngutúr um Stokkhólm. 








Þessi borg er án efa fallegasta borg sem ég hef komið til. Hún býr yfir svo miklum sjarma og hefur svo fallegar byggingar. Þvílík forréttindi að fá að búa hérna. Borgin býður upp á mikið skal ég ykkur segja.

Ég mæli eindregið með því að heimsækja hana ef að þið hafið ekki nú þegar gert það.

brynja-g

Wednesday, October 9, 2013

Fyrsti sænski fyrirlesturinn í dag!

Í gær átti Mardís afmæli.
Til hamingju með 25 árin. Hennar heittelskaði var svo sætur í sér að hóa okkur nokkrum saman í einn drykk til þess að koma Mardísi á óvart. Það lukkaðist heldur betur vel. Næsta laugardag verður svo dúndrandi stuð í afmælisveislu hjá henni. Hlakka til!








Í dag verð ég með minn fyrsta fyrirlestur á sænsku. Ég er merkilega afslöppuð fyrir þennan "merka" atburð.

Bekkirnir hér eru að vísu minni en á Íslandi, kannski hefur það eitthvað að segja. Minn bekkur er ca. 30 manns í krúttlegri stofu. Ekki 300 manns í heilum bíósal!

Ég vona að veðrið fari að batna hjá ykkur á klakanum, ég nýt mín í sænsku 17 gráðunum! 

brynja-g

Sunday, October 6, 2013

Helgin á enda

Takk kærlega allir fyrir að sýna síðasta innleggi mínu svona mikinn áhuga!
Mér þykir ekkert smá vænt um það. 

Helgin er búin að vera ósköp ljúf. Í fyrsta sinn í nokkrar vikur hafa allir fjölskyldumeðlimir verið í fríi bæði laugardag og sunnudag. 
Það er svo notalegt þegar við eigum helgina saman.

Á föstudagskvöldið fórum við í mat til yndislegra vina. Þau báru fram þvílíka veislu handa okkur. Við fengum hörpuskel í forrétt og lamb í aðalrétt. Það er ekki að spurja að hæfileikunum í eldhúsinu á þeim bænum!

Ég kom svo með eftirréttinn og í þetta sinn gerði ég möndlustykki úr fyrstu bókinni hennar Berglindar Sigmarsdóttur, 
Þessi möndlustykki eru algjört nammi!
Ég notaði að vísu ekki möndlusmjör heldur hnetusmjör í staðinn þar sem að það er aðeins ódýrara.
Hrikalega gott!









Í gær var okkur svo boðið í 2ja ára afmæli hjá Sóllilju og það þarf nú ekki að taka það fram að það var alveg frábært.
Við fengum æðislega súpu og auðvitað nóg af kökum! Enda lágum við afvelta í sófanum í allt gærkvöld eftir át dagsins.

Í dag byrjuðum við daginn á hollum og góðum brunch og eyddum svo deginum í Gamla Stan, gamla bænum hér í Stokkhólmi. Þar er yndislegt að rölta um þröngu göturnar og skoða litlu búðirnar. Þetta minnir mann aðeins á Ítalíu. Þröngar litlar götur lagðar pínulitlum hellum, ótrúlega kósý. Við fjölskyldan enduðum daginn sem vafinn var Ítölsku þema á Vapiano þar sem við gæddum okkur á pizzum og pasta, alltaf gott.




Ég vona að þið hafið átt ljúfa helgi og óska ykkur góðs sunnudagskvölds.

brynja-g

Wednesday, October 2, 2013

Three Wise Monkeys

Ég er mjög hrifin af japönsku öpunum þremur, Mizaru, Kikazaru og Iwazaru. Þeir eru kallaðir "The Three Wise Monkeys" og saman standa þeir fyrir reglu sem kallast;

 "see no evil, hear no evil, speak no evil". 

Mizaru stendur fyrir það fyrsta, Kikazaru fyrir það annað og Iwazaru það síðasta. Stundum er talað um fjórða apann Shizaru og sagt að hann eigi að standa fyrir "do no evil".

En í upphaflegu reglunni eru aparnir bara þrír.




Mér finnst þetta gríðarlega góð meginregla að fara eftir. Það er löngu vitað að mannskepnan er mikið fyrir að slúðra um annað fólk. Stundum er slúðrið satt og stundum ekki. Í flestum tilfellum breytist slúðrið með hverjum sem segir það og verður að einhverju stærra og meira.

Ég bý í mjög litlu Íslendinga samfélagi hér í Svíþjóð. Það vill oft verða þannig að í litlum samfélögum, litlum bæjum eða litlum hópum verði til ákveðin slúðurmenning. Sem mér finnst fyrir mína parta mjög sorglegt.

Fyrir nokkrum vikum heyrði ég slúður um sjálfa mig og vini mína hér í Stokkhólmi sem átti ekki við nein rök að styðjast. Hér með leiðrétti ég það slúður og bið ykkur sem eruð að dreifa því að vinsamlegast hætta.

 En þetta innlegg snýst ekki um það.
Það snýst um gróusögur yfir höfuð.

Ég er þannig manneskja að mér finnst afskaplega leiðinlegt þegar fólk er að tala um mig eða annað fólk á neikvæðan og rangan hátt. Auðvitað hafa allir sínar skoðanir á hlutum og fólki og það finnst mér bara hið besta mál. Það þurfa ekki allir að vera sammála. Það sem skiptir svo auðvitað mestu máli er að þeir sem þekkja viðkomandi vita hvað er satt og ekki satt. Hinir eiga ekki að skipta máli en fyrir svo marga gera þeir það nú samt.

Mér finnst mjög leiðinlegt og ljótt þegar fólk er að dreifa sögum sem það hefur ekki hugmynd um hvort séu sannar eða ekki. Allt of margir tala um hluti sem þeir hafa ekki vit á og hugsa ekki hvernig áhrif það gæti haft á annað fólk í kringum það.

Allir hafa lent í því að vera partur af slúðri. Bæði sem efnið sjálft og sem þátttakandi í að dreifa því, þar með talið undirrituð. 
Upp á síðkastið hafa verið óhugnalega margar fréttir af einelti og slúðri sem hefur endað með sorglegum afleiðingum. Við teljum okkur vera vitsmunalegar verur og klárari en hin dýrin á flestum sviðum en samt virðast allt of margir nærast á því að tala illa um náungann og dreifa gróusögum. Hin dýrin særa önnur dýr af þeirri ástæðu að komast af, lifa lengur. Í frumskóginu gildir "survival of the fittest". Við virðumst hins vegar vera eina dýrategundin sem er illkvittin við aðra af eigin sjálfelsku einni. Ef við erum svona miklar vitsmunaverur sé ég ekki að baktal og sögusagnir hjálpi okkur að komast af á neinn hátt.

 Ættum við þá ekki frekar að reyna að muna orðin;

 "aðgát skal höfð í nærveru sálar"?

Ættum við ekki frekar að reyna að upphefja annað fólk og sjá það góða í náunganum? Hjálpa öðrum og sýna væntumþykju?

Að þessu sögðu finnst mér að allir ættu að taka sér apana þrjá til fyrirmyndar. Er ekki meistaramánuður? Þetta fyndist mér vera markmið sem allir ættu að setja sér til frambúðar.










Ást og væntumþykja til ykkar allra.

brynja-g


Tuesday, October 1, 2013

Peysuhugleiðingar

Í morgun gerði kuldinn heldur betur vart við sig. Það voru ekki  nema 2°C hiti úti og það hafði greinilega verið frost síðustu nótt þar sem að ég þurfti að skafa aðeins af bílnum. Ég er því búin að vera í miklum peysuhugleiðingum í dag og mitt næsta verkefni í búðunum verður að finna mér djúsí peysu...eða tvær!











brynja-g