Friday, December 30, 2011

Síðasti föstudagur ársins

Þá er komið að síðasta föstudegi ársins. Föstudagar eru einir af mínum uppáhalds dögum. Mér finnst alltaf ákveðin stemmning að sjá að fylgiblaðið "Föstudagur" er komið inn um lúguna þegar ég vakna. Þar er krossgáta sem ég geri alltaf. Billi gerir Sudoku þrautirnar. Á föstudögum gerum við líka alltaf hina alræmdu "föstudagspizzu", sem að þessu sinni verður í boði móður minnar. Kvöldin fara oftar en ekki í kósý kúr, sjónvarpsgláp og nammiát.
Það er bara eitthvað við föstudaga, þeir eru svo ljúfir. Finnst ykkur það ekki?

Þessi föstudagur fer eins og síðustu dagar í pakkningar. Það getur verið ákveðin áskorun að pakka með tvo litla grislinga skoppandi um íbúðina. Við erum heppin að hafa nóg af fólki í kringum okkur sem er tilbúið til að aðstoða okkur. Á milli verður maður bara að bjarga sér, eins og sjá má á þessari mynd.

 En við ætlum líka að fara með börnin út á snjóþotur sem afi Billi gaf þeim. Mamman er allavega mjög spennt að fara út að leika í snjónum!

Eigið góðan dag!

xxx
brynja-g



Thursday, December 29, 2011

Pakka pakka

Í dag er dagur tvö í pakkningum. Ég er búin að losa mig við alveg helling af fötum og dóti sem fer beinustu leið í Kolaportið. Við Billi verðum þar að selja af okkur spjarirnar og fleira sunnudaginn 8.janúar. Endilega kíkið á okkur.
Ég er orðin svo vön að pakka að mér finnst það eiginlega bara orðið gaman...


...dæmi hver fyrir sig hvort það sé jákvætt eða neikvætt!

Við ætlum að fara á jólaball hjá Oddfellow reglunni í Hafnarfirði í dag. Ég hlakka mikið til að dansa með börnunum og hitta jólasveininn, það verður gaman.
Svo nálgast áramótin hratt og mikið spáð í hvað skuli gera og í hverju vera. Það kemur nú allt í ljós bara með tímanum held ég. Forgangurinn er allavega að pakka.

Ég sá frétt um "best celeb haircut" þar sem að sigurvegari ársins er Emma Watson. Þetta er annað árið í röð sem að Watson fær titilinn. Þetta hefur vakið mikla athygli því að Jennifer Aniston hefur löngum þótt vera fyrirmynd hvað varðar náttúrulegt og flott hár og eru margir hissa á að Aniston hafi "glatað" sætinu tvö ár í röð.


Verandi mikill Aniston aðdáandi myndi ég velja hana fram yfir Watson, hiklaust!

En misjafn er smekkur manna, sem betur fer.

Aftur í pakkningar.

xxx
brynja-g

Monday, December 26, 2011

Jólaleti

Það er eiginlega skammarlegt hvað er langt síðan ég bloggaði. Það hefur bara verið svo mikið að gera að ég hef bókstaflega ekki haft tíma!
En nú er ég sest niður og ætla að fara yfir síðustu daga, í styttri orðum en hægt væri.

Ég kláraði prófin 15.des, þvílíkur léttir. Þann 16.des fórum við Billi á jólahlaðborð á Fiskmarkaðnum með 7 öðrum frábærum pörum, NAMM hvað það var gott!
Daginn eftir skellti ég mér til Elísabetar vinkonu í heimsókn til Svíþjóðar og tók Kára Snæ með mér. Ég gat ómögulega farið ein og skilið bæði börnin eftir. Nöfnin þeirra voru sett í skál og svo dregið. Bryndís Kara fer bara næst ein með mömmu sinni í smá frí.
Þegar við komum svo heim var svo stutt í jólin, margt að gera og svo bara leið tíminn!

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og ég vona að þið hafið haft það rosalega gott hingað til. Jólin eru nú ekki alveg búin. Ég er allavega búin að hafa það alveg ótrúlega gott, borða mikið, horfa á mínar árlegu jólamyndir, Love Actually og The Holiday og bara njóta þess að vera til.
 


Það styttist óðfluga í flutning. Við þurfum víst að fara með búslóðina okkar niður í Eimskip ekki seinna en 3.janúar svo að ég verð í miklum pakkningum á milli jóla og nýárs. Þetta er ótrúlega óraunverulegt, en á sama tíma alveg hrikalega spennandi.

xxx
brynja-g


Wednesday, December 14, 2011

Frelsið nálgast

Bara eitt próf eftir , mikið verður frelsið ljúft!
Ég fer sem sagt í eitt próf í fyrramálið og eftir það verð ég komin í jólafrí. Ekki amalegt það!

Ég ætla sko að fagna þessum próflokum með stæl.
  Ég er búin að ákveða að fimmtudagskvöldið verði extra jólalegt. Þá verður hlustað á jólalög, pakkað inn jólagjöfum og jólakortin kláruð svo eitthvað sé nefnt. 
Á föstudaginn ætlum við Billi að fara með nokkrum vinum á jólahlaðborð á Fiskmarkaðnum, ég er mjög spennt að fara þangað og borða góða matinn þeirra. 

Svo er að sjálfsögðu toppurinn eftir, því á laugardaginn ætla ég að stinga af til Svíþjóðar í smá stelpuferð til hennar Elísabetar minnar. Mikið sem ég er nú spennt. Það verður fínt að fara í smá "húsmæðraorlof". Ég er reyndar alveg gífurlega stressuð að fara frá börnunum í nokkra daga, það hefur aldrei gerst áður. Það verður líklega miklu erfiðara fyrir mig heldur en þau!
En ég efast ekki um að Elísabet verði búin að plana tímann okkar saman vel svo að ég þurfi nú ekki að fá of mikla heimþrá :)

xxx
brynja-g

Monday, December 12, 2011

XoXo

Ég elska elska elska Gossip Girl og á mjög erfitt með að sætta mig við að þátturinn sé kominn í frí fram í janúar. Á svona kvöldum, eftir próf, þegar maður er í smá lestrarpásu fram að næsta prófi væri ég alveg til í að henda mér upp í sófa og horfa á GG. Það verður víst að bíða fram í janúar. Ætli ég horfi ekki bara næst í Stokkhólmi! Spennó!
Það er nú ekkert leyndarmál að fataskápur stelpnanna er oftar en ekki "to die for". 
Ég ákvað að setja nokkrar myndir af fatnaði sem að ég væri alveg til í að eiga.

Mér finnst bolurinn sem Charlie er í alveg geggjaður!

Gorgeous!
Nokkrum númerum of flott!

Pæja! Væri alveg til í mussuna og stuttbuxurnar...og skóna...kannski bara allt!



Baksviðs. Væri ekki leiðinlegt að geta valið sér föt þaðan á hverjum morgni, eða hvað? Ætli maður fengi ekki bara valkvíða!

xxx
brynja-g

Sunday, December 11, 2011

Undir heimspekilegum áhrifum...

Í þessum skrifuðu orðum sit ég og læri fyrir heimspeki próf sem er í fyrramálið. Heimspeki getur verið ótrúlega illskiljanleg og flókin, en hún getur líka verið bara svolítið skemmtileg. Heimspekin sem að ég er í leggur áherslu á siðfræðilegar ákvarðanir lækna og hjúkrunarfræðinga. Ég var að lesa dæmisögu sem af einhverjum ástæðum snerti mig. Ég ætla í stuttu máli að útskýra hana.

Árið 1983 var nýburi í Bandaríkjunum sem fæddist með klofinn hrygg, rofna og útbungandi mænu, vatnshöfuð og það sem var kannski alvarlegast, smáheila (óeðlilega lítið höfuð sem gefur til kynna að hluta af heilanum vanti).
Litla barnið þurfti nauðsynlega á skurðaðgerð að halda vegna klofna hryggjarins. Það voru tveir læknar sem komu sem mest að þessu máli. Læknir A taldi að aðgerðin væri tilgangslaus þar sem að barnið yrði aldrei fært um að lifa lífi sem kalla mætti mennskt. Barnið yrði fatlað, myndi líklega ekki þekkja foreldra sína, gæti ekki haft stjórn á hægðum né þvagi og í stutt máli bundin við rúm og aðstoð alla ævi. Hann taldi einnig að það væri ólíklegt að barnið myndi lifa lengi.
Læknir B taldi að ástandið væri ekki alveg vonlaust og senda ætti því litlu stúlkuna strax í aðgerð.
Þetta mál olli miklum usla í þjóðfélaginu. Það fór m.a. nokkrum sinnum fyrir dóm. 
Fólk hafði margar mismunandi skoðanir á málinu. Sumir voru sammála lækni A, aðrir lækni B. 
Sumir töldu að verið væri að mismuna fötluðum einstakling, sem væri bannað með lögum. Aðrir töldu að gera ætti það sem kæmi best út fyrir barnið. Læknir A taldi að það myndi ekki gagnast barninu á neinn skilvirkan hátt að gangast undir aðgerðina.

Foreldrarnir ákváðu að senda barnið ekki í aðgerðina vegna þess að uppskurður virtist ekki vera barninu til góðs.
Fimm árum seinna var barnið enn á lífi, í hjólastól, altalandi og að byrja í skóla fyrir fötluð börn. Foreldrarnir höfðu því í rauninni tekið ranga ákvörðun. Þetta var samt að sjálfsögðu eitthvað sem að þau vissu ekki að myndi gerast. Það er svo hröð þróun í vísindum. En það er einmitt málið. 
Á maður ekki að leyfa öllum að njóta sama réttar til lífs, burtséð frá því hvort að þeir séu svona eða hinsegin? 
Að sjálfsðgðu tekur maður tillit til aðstæðna. Ef maður myndi vita fyrir víst að einstaklingurinn yrði bundinn við öndunarvél og kæmist ekki til meðvitundar myndi maður kannski gera eitthvað öðruvísi.
Verður framtíðin ekki bara að leiða í ljós hvernig hlutirnir fara?
Mín skoðun er allavega sú að allir eiga sinn lífsrétt og við eigum að gera okkar besta til að skapa öllum einstaklingum það besta líf sem möguleiki er á.

En...það víst alltaf koma upp siðferðislegar ádeilur í öllum stéttum og maður verður bara að líta á það sem skemmtilegt verkefni, ekki satt?!

Ég held að það sé kominn tími á að halda þessum lærdómi áfram. Mig langaði bara að deila þessu með ykkur.


xxx
brynja-g

Saturday, December 10, 2011

Númer eitt

Það er löngu kominn tími á að endurverkja skrif mín í netheima, sérstaklega þar sem að við fjölskyldan erum að flytja til Stokkhólms eftir áramót. Sennilega eru ein tvö ár liðin frá því að ég bloggaði síðast, en áður fyrr var ég mjög virk á þessu sviði. Ég hef ákveðið að skrifa um allt á milli himins og jarðar og vona að þið fylgist með.

xxx
brynja-g