Thursday, January 30, 2014

Veikindi veikindi

Ég eyddi hálfri síðustu viku heima með son minn lasinn. Greyið fékk svo kallaða barkabólgu/krúpp, sem lýsir sér þannig að öndunarvegurinn þrengist þegar hann fær hóstakast og á erfitt með öndun. Það heyrist einnig mjög einkennandi hljóð þegar hóstað er, en það er eins hljóðið sem selir gera. Dagsatt. 
Það sem er magnað er að það virkar vel á einkennin að hlaupa með börn út í kalt loft. Hann varð alltaf verstur þegar hann var farinn að sofa og eyddum við því nokkrum kvöldum í hlaupa með hann út í frostið, í snjógalla og vafinn inn í sæng. Þar sátum við svo þar til að okkur fannst honum líða betur. 
Það er alveg ótrúlega óhuggulegt að horfa á barnið sitt berjast við að ná andanum. 
Á svona stundum er ég þakklát fyrir að búa með lækni.
Hann jafnaði sig svo og var feginn að komast í leikskólann þessi elska.

Eins og ég hafði minnst á í síðustu færslu þá fórum við á skíði síðustu helgi. 
Við vorum varla komin heim þegar að dóttir mín varð veik. 
Svona er þetta, þau taka við af hvort öðru.
Hún er búin að vera heima alla þessa viku með hita og kvef. 
Ég vona að hún verði nógu frísk til þess að fara í leikskólann á morgun. Þó að hún sé alltaf mjög glöð á morgnana að þurfa ekki að fara í leikskólann og fá að vera heima með mömmu, þá líða kannski tveir tímar og hún er orðin eirðarlaus. 

Við erum að sjálfsögðu búnar að dunda okkur við ýmislegt, lita, púsla, horfa á teiknimyndir og fara í ýmsa leiki. 
Í dag erum við búnar að baka hrökkbrauð og hafa það notalegt. Henni finnst samt mjög ósanngjarnt að geta ekki farið með mér eitthvað út, þá helst í ræktina eða búðina.

Það tekur á alla að vera svona mikið inni svo ég vona að þessum veikindum fari að ljúka. Þau eru reyndar búin að vera mjög hraust í allan vetur svo að það hlaut að koma að þessu. Ég hef ekki yfir miklu að kvarta.

Það sem er þó jákvætt við þetta allt saman er að þau fá að eyða svolítlum tíma í sundur. Þar sem að þau eru tvíburar eru þau mjög háð hvort öðru og hafa einhvers konar tengingu sem ég mun aldrei skilja. Sem er yndislegt.
En það er líka mjög gott fyrir þau að vera í sitt hvoru lagi og njóta sín. 
Það hefur ekki verið neitt vandamál í þessari veikindatörn og þau alltaf jafn glöð að sjá hvort annað í lok dags.

Ég læt fylgja með eina mynd af þeim þar sem hún var með "klullur" eins og mamma og hann með vax eins og pabbi. 





brynja-g

Monday, January 27, 2014

Helgin

Um helgina fórum við fjölskyldan í fyrsta skiptið á skíði síðan tvíbökurnar fæddust. Það var ekkert smá skemmtilegt að sjá börnin sín á skíðum. 
Þau voru alveg ótrúlega dugleg og foreldrarnir að springa úr stolti.
Það sem er svo skemmtilegt við að búa í svona stórri borg er að hafa fjölbreytta afþreyingu í boði. 
Hér eru nokkur skíðasvæði (misdýr) sem hægt er að velja úr. 
Nú ætlum við að reyna að fara um hverja helgi til þess að æfa krakkana betur.



Bóndadagurinn var ljúfur hjá okkur. Bóndinn á heimilinu fékk pakka, góðan mat og dekur í tilefni dagsins. Ég sá svo svolítið sniðuga setningu á einni bóndadagskökunni á Íslandi. 
Þar stóð; Bóndadagur í 1 dag, svo koma 364 konudagar. 
Mér fannst þetta frekar fyndið.

Á laugardagskvöldið fengum við góða vini til okkar í mat og spil. 
Við höfum mjög gaman að því að spila og höfum prufað hin ýmsu spil. 
Við prufuðum nýtt spil sem heitir Escape: The curse of the Temple, sem ég mæli hiklaust með. 
Spilið snýst um að komast út úr svo kölluðu musteri áður en að tíminn rennur út og musterið hrynur. 

Spilið veitir að sjálfsögðu nokkrar áskoranir sem maður verður að komast í gegnum og maður getur einnig dregið spil sem að geta komið manni til hjálpar.
Það fylgir geisladiskur með spilinu með lagi sem maður verður að spila á meðan, sem að gerir þetta ennþá meira stressandi og ég get fullyrt það að hjartslátturinn fer upp úr öllu valdi oftar en einu sinn þegar spilið er spilað.
Spilið er fyrir 8 ára og eldri og hentar því vel fyrir fjölskyldur sem finnst gaman að spila saman.
Annað jákvætt við það, er að hvert spil tekur aðeins 10 mínútur og hentar það því mjög vel þeim sem hafa ekki eirð í sér að sitja lengi við flókin spil. 




Við spiluðum spilið að minnsta kosti fimm sinnum á föstudaginn, ef ekki oftar.

brynja-g

Tuesday, January 21, 2014

Snúðar og Stickygram

Það er kominn 21.janúar. 
Ég kemst varla yfir það hvað tíminn flýgur áfram! Það segja margir að tíminn líði hraðar eftir að maður eignast börn, ég get verið fullkomlega sammála því. 
Börnin mín eru að verða fjögurra ára í sumar, FJÖGURRA ÁRA! 
Mér finnst sem ég hafi setið með þau á brjósti fyrir nokkrum mánuðum. Eins gott að maður muni að njóta hvers tímabils, það kemur aldrei aftur.

Þegar maður býr erlendis fær maður stundum svakalega löngun í eitthvað sem ekki fæst nema á Íslandi. 
Mig er lengi búið að langa í snúða eins og fást í bakaríunum, með súkkulaði glassúri. Ég fann eina hrikalega góða uppskrift hérna, eina sem ég gerði öðruvísi var að sleppa kaffinu í kreminu.
Þeir heppnuðust ótrúlega vel og voru hrikalega góðir.

Annað skemmtilegt sem ég var að uppgötva er Stickygram. Hérna getur maður breytt instagram myndunum sínum í segla á ísskápinn fyrir lítinn sem engan pening að mínu mati. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og var að fá mína fyrstu pöntun í póstinum áðan.

Hér fyrir neðan má sjá útkomuna. Gæðin á myndinni eru ekki þau bestu, en þið sjáið allavega um það bil hvernig þetta lítur út.





Aldrei að vita nema ég panti fleiri bráðlega. Ég mæli með þessu.

brynja-g

Wednesday, January 8, 2014

Halló rútína

Nú eru jólin senn á enda og daglega rútínan að byrja. Mikið er ég fegin. Það er alltaf jafn yndislegt að njóta jólanna en alveg ofboðslega gott að komast aftur í sína venjulega rútínu. 
Við höfðum það alveg frábært með foreldrum mínum hér yfir jólin og nutum svo áramótanna með vinum okkar.

Krakkarnir byrjuðu á leikskólanum í gær og höfðu ekkert smá gott af því. Þau eru voðalega glöð að hitta alla krakkana aftur og einnig "fröknarna". Á leikskólum hér í Svíþjóð eru nefnilega konurnar sem vinna á leikskólunum kallaðar "fröken". 
Mér finnst það voðalega krúttlegt. 
Ég hef reyndar ekki velt því fyrir mér hvað strákarnir eru kallaðir. Það er enginn strákur að vinna á þeirra deild, en kannski herra?
Ég ætti að komast að því.

Framundan hjá okkur er því skóli, leikskóli, vinna og almenn, venjuleg rútína. 
Nýtt ár framundan og ný markmið. Eða bara sömu markmið og hafa verið því að það er alltaf hægt að bæta sig á öllum sviðum, ekki satt?

2014 er mjög spennandi ár og felur í sér brúðkaup og barneignir vina, ferðalög, fermingar og fleira skemmtilegt.




Vona að þið hafið haft það gott yfir jólin og séuð tilbúin að komast í ykkar rútínu.

brynja-g