Wednesday, October 2, 2013

Three Wise Monkeys

Ég er mjög hrifin af japönsku öpunum þremur, Mizaru, Kikazaru og Iwazaru. Þeir eru kallaðir "The Three Wise Monkeys" og saman standa þeir fyrir reglu sem kallast;

 "see no evil, hear no evil, speak no evil". 

Mizaru stendur fyrir það fyrsta, Kikazaru fyrir það annað og Iwazaru það síðasta. Stundum er talað um fjórða apann Shizaru og sagt að hann eigi að standa fyrir "do no evil".

En í upphaflegu reglunni eru aparnir bara þrír.




Mér finnst þetta gríðarlega góð meginregla að fara eftir. Það er löngu vitað að mannskepnan er mikið fyrir að slúðra um annað fólk. Stundum er slúðrið satt og stundum ekki. Í flestum tilfellum breytist slúðrið með hverjum sem segir það og verður að einhverju stærra og meira.

Ég bý í mjög litlu Íslendinga samfélagi hér í Svíþjóð. Það vill oft verða þannig að í litlum samfélögum, litlum bæjum eða litlum hópum verði til ákveðin slúðurmenning. Sem mér finnst fyrir mína parta mjög sorglegt.

Fyrir nokkrum vikum heyrði ég slúður um sjálfa mig og vini mína hér í Stokkhólmi sem átti ekki við nein rök að styðjast. Hér með leiðrétti ég það slúður og bið ykkur sem eruð að dreifa því að vinsamlegast hætta.

 En þetta innlegg snýst ekki um það.
Það snýst um gróusögur yfir höfuð.

Ég er þannig manneskja að mér finnst afskaplega leiðinlegt þegar fólk er að tala um mig eða annað fólk á neikvæðan og rangan hátt. Auðvitað hafa allir sínar skoðanir á hlutum og fólki og það finnst mér bara hið besta mál. Það þurfa ekki allir að vera sammála. Það sem skiptir svo auðvitað mestu máli er að þeir sem þekkja viðkomandi vita hvað er satt og ekki satt. Hinir eiga ekki að skipta máli en fyrir svo marga gera þeir það nú samt.

Mér finnst mjög leiðinlegt og ljótt þegar fólk er að dreifa sögum sem það hefur ekki hugmynd um hvort séu sannar eða ekki. Allt of margir tala um hluti sem þeir hafa ekki vit á og hugsa ekki hvernig áhrif það gæti haft á annað fólk í kringum það.

Allir hafa lent í því að vera partur af slúðri. Bæði sem efnið sjálft og sem þátttakandi í að dreifa því, þar með talið undirrituð. 
Upp á síðkastið hafa verið óhugnalega margar fréttir af einelti og slúðri sem hefur endað með sorglegum afleiðingum. Við teljum okkur vera vitsmunalegar verur og klárari en hin dýrin á flestum sviðum en samt virðast allt of margir nærast á því að tala illa um náungann og dreifa gróusögum. Hin dýrin særa önnur dýr af þeirri ástæðu að komast af, lifa lengur. Í frumskóginu gildir "survival of the fittest". Við virðumst hins vegar vera eina dýrategundin sem er illkvittin við aðra af eigin sjálfelsku einni. Ef við erum svona miklar vitsmunaverur sé ég ekki að baktal og sögusagnir hjálpi okkur að komast af á neinn hátt.

 Ættum við þá ekki frekar að reyna að muna orðin;

 "aðgát skal höfð í nærveru sálar"?

Ættum við ekki frekar að reyna að upphefja annað fólk og sjá það góða í náunganum? Hjálpa öðrum og sýna væntumþykju?

Að þessu sögðu finnst mér að allir ættu að taka sér apana þrjá til fyrirmyndar. Er ekki meistaramánuður? Þetta fyndist mér vera markmið sem allir ættu að setja sér til frambúðar.










Ást og væntumþykja til ykkar allra.

brynja-g


5 comments:

  1. Svo flott hjá þér að skrifa þetta og minna á! :) Mikið óskaplega er ég sammála :)

    GO BRYNJA!

    Knús Auður J xxx

    ReplyDelete
  2. Fallega skrifað hjá fallegu þér, bæði að innan sem utan.

    ReplyDelete
  3. Svo sammála ! Svo fáranlegt þegar fólk er að dreifa sögum um eitthvað bull og veit í raun ekkert hvað það er að segja. Svo trúir allskonar fólki þessu bulli og heldur áfram að dreifa. Hef lent í þessu sjálf og ekkert er meira pirrandi !

    ReplyDelete
  4. Algjörlega sammála þér, þoli sjálf ekki að heyra talað illa um aðra eða þegar slúðrað er t.d. um bólfarir þeirra sem koma manni nákvæmlega ekkert við! Það vekur hjá mér óhug og ég velti fyrir mér hvort viðkomandi leyfi sér að gagnrýna mig og mínar gjörðir i annarra eyru.

    Ég verð þó að benda á að ég tel þig vera að misskilja boðskapinn sem aparnir eiga að flytja, í vestrænum heimi allavega. Venjulega er vísað til þeirra þegar talað er um siðferðislegt kæruleysi fólks sem verður vitni að einhverju "evil-doing" og þykist svo ekkert hafa heyrt/séð og kjósa að þegja yfir því sem það sá eða heyrði "ekki", eða láta hreinlega eins og atburðurinn hafi verið réttlætanlegur. Fjórði apinn, (án þess að hafa lesið það einhvers staðar) tel ég þá að tákni þá sem þykjast ekkert rangt gera, t.d. þeir sem telja réttlætanlegt að viðra fordóma sína á samkynhneigð á opinberum vettvangi, eins og það hafi eitthvað með tjáningarfrelsi að gera, þegar það veit innst inni að það er að særa aðra með orðum sínum.

    Þessa hugmynd um apana má þó eðlilega koma inn í þessa slúður-umræðu þína, með því að benda fólki á að ef það hlustar á slúður og kinkar bara kolli brosandi, þá er það á yfirborðinu að samþykkja það sem er að gerast. Ef við hins vegar segjum viðkomandi hvað okkur finnst um þetta, eins og ég hef reynt að temja mér á mínum "fullorðinsárum", þá erum við ekki að taka þátt í þessu "illa athæfi" sem slúður er. Ég reyni eftir fremsta megni að vera kurteis þegar ég bendi fólki á að mér finnist ekki eðlilegt að bera út gróusögur, hvað þá um fólk sem kemur mér lítið við, um hluti sem oft snerta einkalíf viðkomandi. Ég hef ekki áhuga á að heyra hvað þessi er búin að sofa hjá mörgum eða hvernig þessi hélt framhjá þessum ef það kemur mér ekki persónulega við, og ég kæri mig ekki um að þannig sé talað um mig.

    ReplyDelete
  5. Takk Lena fyrir athugasemdina þína. Ég veit hvernig boðskapurinn um apana er en var eins og þú segir að reyna að flétta hana saman við þetta innlegg um slúður :)

    Það er ógnvekjandi hvað fólk leyfir sér að segja um annað fólk án þess að hafa hugmynd um hvað það er að segja. Eins og ég nefndi hér að ofan, þá hafa sennilega allir lent í því að heyra eitthvað um sjálfan sig sem ekki er satt, eða heyra eitthvað um einhvern annan sem þeir vita að ekki er satt.
    Mér fannst því tilvalið að minna fólk á að passa hvað það lætur út úr sér og hugsa aðeins áður en það talar.
    Við stjórnum víst ekki hvernig aðrir haga sér en vonandi með því að minna á svona hluti af og til fáum við fólk til þess að líta í eigin barm og temja sér fallegri hugsunarhátt til náungans. :)

    ReplyDelete