Thursday, January 30, 2014

Veikindi veikindi

Ég eyddi hálfri síðustu viku heima með son minn lasinn. Greyið fékk svo kallaða barkabólgu/krúpp, sem lýsir sér þannig að öndunarvegurinn þrengist þegar hann fær hóstakast og á erfitt með öndun. Það heyrist einnig mjög einkennandi hljóð þegar hóstað er, en það er eins hljóðið sem selir gera. Dagsatt. 
Það sem er magnað er að það virkar vel á einkennin að hlaupa með börn út í kalt loft. Hann varð alltaf verstur þegar hann var farinn að sofa og eyddum við því nokkrum kvöldum í hlaupa með hann út í frostið, í snjógalla og vafinn inn í sæng. Þar sátum við svo þar til að okkur fannst honum líða betur. 
Það er alveg ótrúlega óhuggulegt að horfa á barnið sitt berjast við að ná andanum. 
Á svona stundum er ég þakklát fyrir að búa með lækni.
Hann jafnaði sig svo og var feginn að komast í leikskólann þessi elska.

Eins og ég hafði minnst á í síðustu færslu þá fórum við á skíði síðustu helgi. 
Við vorum varla komin heim þegar að dóttir mín varð veik. 
Svona er þetta, þau taka við af hvort öðru.
Hún er búin að vera heima alla þessa viku með hita og kvef. 
Ég vona að hún verði nógu frísk til þess að fara í leikskólann á morgun. Þó að hún sé alltaf mjög glöð á morgnana að þurfa ekki að fara í leikskólann og fá að vera heima með mömmu, þá líða kannski tveir tímar og hún er orðin eirðarlaus. 

Við erum að sjálfsögðu búnar að dunda okkur við ýmislegt, lita, púsla, horfa á teiknimyndir og fara í ýmsa leiki. 
Í dag erum við búnar að baka hrökkbrauð og hafa það notalegt. Henni finnst samt mjög ósanngjarnt að geta ekki farið með mér eitthvað út, þá helst í ræktina eða búðina.

Það tekur á alla að vera svona mikið inni svo ég vona að þessum veikindum fari að ljúka. Þau eru reyndar búin að vera mjög hraust í allan vetur svo að það hlaut að koma að þessu. Ég hef ekki yfir miklu að kvarta.

Það sem er þó jákvætt við þetta allt saman er að þau fá að eyða svolítlum tíma í sundur. Þar sem að þau eru tvíburar eru þau mjög háð hvort öðru og hafa einhvers konar tengingu sem ég mun aldrei skilja. Sem er yndislegt.
En það er líka mjög gott fyrir þau að vera í sitt hvoru lagi og njóta sín. 
Það hefur ekki verið neitt vandamál í þessari veikindatörn og þau alltaf jafn glöð að sjá hvort annað í lok dags.

Ég læt fylgja með eina mynd af þeim þar sem hún var með "klullur" eins og mamma og hann með vax eins og pabbi. 





brynja-g

2 comments:

  1. Æj þau eru svo ótrúlega sæt!

    En þetta tekur sko á að vera heima með veik börn, örugglega sérstaklega erfitt fyrir þig þar sem þú býrð fjarri fjölskyldunni þinni. Þú ert hetja =) Vonandi eru þau að hressast.

    Knús Brynja mín!

    ReplyDelete