Thursday, December 5, 2013

"Our children are the future"

Akkurat á þessu augnabliki sit ég í klínískum sálfræðitíma við Stocholms Universitet. Þetta eru mjög áhugaverðir tímar og skemmtilegt að sitja í þeim...svona oftast.

Í dag höfum við mikið talað um meðferð. Það er að segja, viðtalsmeðferð sem fer fram hjá sálfræðingum. Mér finnst erfitt að ímynda mér hvað ég vil gera þegar ég klára þessa menntun.

Ég er ekki viss um að ég hafi áhuga á því að sitja allan daginn og hlusta á fólk skýra frá vandamálum sínum og hjálpa því að leysa þau.
Það er mikilvægt starf, en ég er ekki viss um að ég vilji vinna við það alla mína ævi.

Mitt aðaláhugasvið í náminu hefur hingað til verið börn. Þroskasálfræði og allt sem kemur henni við. 
Mér finnst það einstaklega áhugavert og gaman að hugsa hvernig foreldrar/forráðamenn geta alið börnin sín vel upp og mótað heilsteypta og hamingjusama einstaklinga sem eru tilbúnir að fara út í samfélagið. 
Það er auðvitað mikið og vandasamt verk. En það er líka eins og með svo margt annað, ekki eitthvað sem er hægt að læra einn, tveir og þrír heldur lærir fólk mikið af reynslunni. 

Það er áhugavert að steypa sér í vangaveltur um hvernig viðbrögð og hegðun foreldra/forráðamanna geta skipt sköpum fyrir barnið seinna á lífsleiðinni. 

Uppeldisaðferðir hafa í gegnum tíðina verið jafn misjafnar og þær eru margar. Mér finnst til að mynda hrikalegt að hugsa til þess að einu sinni hafi það verið "normið" að láta börn gráta sig í svefn, að það verði að líða x langur tími á milli brjóstagjafa og barnið verði bara að bíða þess á milli. 
Það er óhuggulegt að hugsa til þess að það hafi einnig verið "normið" að beita líkamsrefsingum og að börn hafi ekki verið talin "alvöru" einstaklingar þar til að þau náðu ákveðnum aldri og þar af leiðandi komið fram við þau eins og þeirra tilfinningar og álit skiptu engu máli.



En þetta er sem betur fer breytt í dag og ég neita að trúa því að þetta verði einhvern tíman aftur "normið".
Ég vona að þroskasálfræðingar muni halda áfram að komast að hinu og þessu sem getur bætt uppeldi barna til hins betra. 

Það er nefnilega svo rétt hjá hinum forna Aristotle og henni Whitney Houston heitinni, að börnin okkar eru framtíðin.




Í hraða nútímasamfélags er allt of algengt að foreldrar telji sig ekki hafa tíma fyrir börnin sín og láti það í hendur einhverra annarra að hugsa um þau. Ef fólk ákveður á annað borð að eignast börn er svo mikilvægt að gefa sér tíma í að sinna þeim eftir bestu getu því þessi tími kemur aldrei aftur.



Hlúið vel að börnunum ykkar og gefið þeim allan þann tíma sem þau þurfa á að halda frá ykkur.

Knúsið þau extra mikið í kvöld.

brynja-g

No comments:

Post a Comment