Wednesday, December 11, 2013

Stekkjastaur kom fyrstur....

Mikið sem við áttum góða daga með tengdaforeldrum mínum. Börnin gjörsamlega nutu sín í botn og þau eru klárlega heppnust í heimi með ömmu og afa. 
Fyrst ég er á þeim nótunum verð ég að segja að ég er líka heppnust í heimi með tengdaforeldra. Anna og Billi eru með þeim bestu manneskjum sem ég hef á ævinni kynnst og ég er óendanlega þakklát fyrir að eiga þau að. Það er sko ekki sjálfsagt að eiga svona mikið af góðu fólki í kringum sig. 
Takk aftur fyrir samveruna.

Tölfræði/aðferðarfræði prófið er afstaðið og nú tekur við næsta og síðasta prófið (á árinu). Taugasálfræðin góða. Svo eru reyndar tvö próf í janúar líka og þá er önninni lokið. 
Þetta er svolítið öðruvísi uppbyggt hérna úti eins og ég hef áður talað um. Svo að þessi önn klárast í rauninni ekki fyrr en um miðjan janúar. Öðruvísi, en ágætt.

Snjórinn er allur farinn hjá okkur, mér til mikils ama. Ég bið og vona að við fáum að minnsta kosti hvít jól. Í fyrra var allt á kafi á þessum tíma og hafði verið það í nokkrar vikur. Það kyngdi niður snjónum nánast á hverjum degi og það var svo ótrúlega jólalegt. Það eru ennþá smá séns að hann komi.

Í kvöld kemur svo fyrsti jólasveinninn, Stekkjastaur. Við erum svo heppin að þrátt fyrir að við búum í Svíþjóð þá finna jólasveinarnir alla íslensku krakkana. 
Tvíeykið er mjög spennt fyrir þessu öllu saman. 
Það verður spennandi að sjá hvað Stekkjastaur kemur með.




Að lokum langar mig að deila með ykkur að mig langar rosalega í þessa peysu úr Gina Tricot.
Eins og margir vita þá elska ég jú blúndur og ljósan lit. 
Þessi er nú heldur betur í takt við það.
Kannski les jólasveinninn bloggið mitt.




brynja-g

No comments:

Post a Comment